Ætli það sé ekki komin tími á að endurvekja þessa síðu – þó það sé bara fyrir mig.

Fyrir um ári síðan kom að því að ég stoppaði og hef staðið í stað síðan. Rokka upp og niður um einhver kíló. Og það er að gera mig geðveika. Ekki svo að ég viti svo sem ekki aðeins upp á mig sökina, ég hefði getað staðið mig ögn betur á nokkrum vígstöðum. En þegar það er mikið stress og maður er að reyna að vera 100% á fleiri en einum stað þá endar á því að eitthvað gefur sig.

Ég hef verið að bræða með mér hvað ég get gert. Hvernig ég get fundið eldmóðinn aftur.
Hef farið heim úr ræktinni full af fögrum fyrirheitum en alltaf runnið á rassinn með allt saman. Og ég er alveg komin með nóg af þessu ástandi. Á tímabili ætlaði ég m.a.s. að hætta þessu „rugli“ – þetta væri hvort sem er ekki að skila neinu! En þá kom þessi litla rödd upp í kollinn á mér sem ýtti mér aðeins áfram og vildi ekki gefast upp á mér alveg strax.

Næst á dagskrá er því nett geðveiki. 1200 hitaeiningar í 3-4 vikur, fyrirfram ákveðinn matseðill, hardcore æfingar, velvalin bætiefni og allt sett á fullt.
Núna skal ég klára þetta! (ef það er hægt að segja að maður klári einhvertíman svona vegferð)

Auglýsingar