Þessa dagana skemmti ég mér svoldið við að líta til baka. Sjá breytinguna sem hefur orðið á mér og mínu lífi. Þó þetta hafi útheimt heljarinnar breytingu á mér og mínum venjum. Þá er þetta þess virði. Þó ekki sé nema bara fyrir litla viðkvæma sálartetrið mitt. Ég furða mig þó enn á hvað hafi gerst hjá mér sem verður þess valdandi að ég fer afstað og held þetta út. Niðurstaðan er alltaf ósköp svipuð. Hef ekki grænan! Ég vaknaði í raun bara einn daginn og ákvað að nú þyrfti ég að taka mig taki og gera eitthvað í mínum málum .. og fór að leita leiða til þess.
Þetta „eitthvað“ tók alveg þó nokkurn tíma að komast að, en það hefur verið þess virði. Á leiðinni lærði ég eitt og annað sem hefur verið ágætt að hafa í pokahorninu í þessu ferðalaginu.

En hvernig framkvæmdi ég þessa breytingu? Í litlum skrefum, örlitlum. Og það með hjálp góðs einkaþjálfa sem hélt í höndina á mér á meðan ég tók fyrstu skrefin, hikandi og doldið ósjálfbjarga. Hægt og rólega hefur mér tekist að standa meira á eigin fótum. En það er óskaplega gott að vita af útréttri hönd sem grípur í mann og styður ef allt er á leið á verri veg.

Ég ákvað að taka hlutina rólega. Vinna í einni breytingu í einu. Ekki reyna að ná „ultimate“ takmarkinu og sigra heiminn á einni nóttu. Þó það væri alveg ótrúlega erfitt að taka bara hænuskref í átt að markinu. „Borðaðu fílinn í litlum bitum“ heyrðist alloft á fyrstu mánuðunum mínum með öðlingnum.

Til að byrja með var það að venja komur sínar í ræktina, venja líkama og huga á að ég væri að fara að mæta þarna reglulega. Og hvað þá að venjast því að geta varla gengið dagana á eftir sökum strengja um allan líkaman. Með það að leiðarljósi ákvað ég að mæta 2svar í viku væri fín byrjun, þá myndi ég frekar hafa nennuna og löngunina til að fara heldur en að keyra mig út alltof fljótt – been ther – done that!

Næst var ráðist í mataræðið. Aftur ákvað ég að taka þetta í litlum skrefum. Taka út gos. Það reyndist mér auðveldara en ég átti von á, þó í dag sakni ég örlítið að fá mér ekki „popp&kók“ tvennuna í bíó eða álíka. Ég leyfði mér diet/light/zero gosdrykki á meðan og færði mig hægt og rólega yfir í sódavatnið. Í dag drekk ég að mestu leyti bara vatn, „spice-a“ það upp með klökum ávöxtum (ferskum og frosnum) og í algjörum undantekningartilvikum fæ ég mér Sprite Zero.
Borða reglulega, áður fyrr var það að borða óhollt – of lítið eða „gleyma“ að borða fram eftir öllu.  Í dag er líkaminn stilltur á að borða á x tíma fresti og ég meðvitaðri um að gefa honum góða orku.

Morgunmatur. Þar strandaði ég í smá tíma og þurfti að taka alger „baby-steps“ í átt að markinu sem mér fannst órafjarri oft á tíðum. En litlu hænuskrefin skiluðu sér að lokum og í dag er það morgunmaturinn fastur í rútínunni. Hafandi verið sú sem hafði ekki matarlyst fyrr en í fyrsta lagi 2-3 tímum eftir að hún lufsaðist fram úr rúminu var þetta áskorun. Í dag er ég orðin svöng fljótlega eftir að ég vakna.

Samsetning matarins, ávaxtaneysla, gosleysi, svefninn, fleiri æfingar í viku og allt þetta hef ég tekið fyrir eitt í einu. Með meiri reynslu og þekkingu í farateskinu hef ég stundum náð markinu aðeins fyrr en í upphafi. En það koma líka stundir og dagar sem ég renn á rassgatið með allt heila klabbið. Þar sem ég virkilega hugsa um að hætta þessu öllu og fara í „gamla“ farið. En þá kippi ég í sjálfa mig og tala mig til – því ég get það núna og ég er hætt að kaupa afskanirnar mínar eins auðveldlega og áður fyrr.

Það kom mér á óvart að þetta var, og er, margfalt auðveldara en ég átti von á. Og ég þurfti ekki að taka 360°beygju með allar mínar neysluvenjur. Auðvitað þurfti smá tiltekt, en engar róttækar breytingar.
Í dag get ég ekki hugsað mér að snúa aftur til gamla lífstílsins! Þetta er orðin partur af mér og mínu lífi núna. Mér líður svo margfalt betur á líkama og sál í dag. Þó að það hafi líka verið þrautaganga þá hefur hún verið þess virði – það hefur nefnilega líka kennt mér helling.

Ég vona að þau fáu sem eru eftir að lesa bloggið mitt átti sig á að með litlum skrefum er hægt að ná stórum árangri. Jú það krefst „ögn“ meiri þolinmæði en það skilar sér margfalt til lengri tíma litið!

 

 

Auglýsingar