Eins og ein lítil vindhviða getur feikt heilli spilaborg á „nó-tæm“ feikti örlítil vindhviða mér um koll í síðustu viku.  Mánudagurinn reyndist mér sérlega erfiður.  Átti að fara ein á æfingu og nennan fokin út í hafsauga.  Sat á bílastæðinu fyrir framan ræktina og rökræddi við sjálfan mig fram og tilbaka. „þú ert þreytt- þér líður ekki vel – það kemur dagur eftir þennan dag- osfrv“ en um leið fékk ég samviskubit að standa ekki við það sem þjálfarinn hafði sagt mér að gera.  Á endanum brustu varnirnar og ég sat í bílnum og grét.  Grét yfir aumingjaskapnum í mér, skammaði og reif mig niður.  Sagði mér að ég gæti allt eins hætt þessari vitleysu ef ég gæti ekki farið ein í ræktina. Það kæmi nú einhvertíman að því að ég þyrfti að gera það.  Ef ég gæti það ekki núna afhverju ætti ég þá að geta það seinna?  Og ef ég ætlaði ekki að standa mig væri þessi barátta hvort eð er töpuð.  Sannfærði mig um að það væri bara best að hætta þessari vitleysu, fara bara í sama gamla farið sem ég þekkti svo vel og kynni.

Eftir a.m.k. hálftíma rökræður og grát kom ég mér afstað í ræktina.  Ég labbaði löturhægt á brettinu og reyndi sem mest ég mátti að halda aftur af kökk í hálsinum og tárum.  Fannst ég hafa brugðist sjálfri mér og öllum öðrum.  Fannst ég knúin til að beila á þjálfanum – var komin með margar flóttaleiðir og fannst hver annarri betri.  Á leiðinni heim trilluðu tárin niður kinnarnar og mér fannst ég vera alger aumingi.  Sama hvað ég reyndi að tala um fyrir sjálfri mér þá virtist „ég“ ekki hlusta. 

Miðvikudagurinn mætti í öllu sínu veldi og kvíðahnúturinn með honum.  Allan daginn braust í mér löngunin til að beila á öllu saman.  Fara heim upp í sófa og borða yfir tilfinningarnar.  Af „gömlum“ vana tók ég samt ræktartöskuna með mér í vinnuna.  Ég ákvað því að ætla að „play it cool“ og mæta í ræktina og segja sem minnst við þjálfan um mánudaginn.  Allt gekk þokkalega hjá mér með það plan þangað til herran mætti á svæðið.  Litla ég átti í miklum erfiðleikum með að halda aftur af tárunum og áður en ég vissi af var ég búin að segja honum alla sólarsöguna. Að sjálfsögðu átti drengurinn fullt af góðum ráðum handa mér.  Mér fannst ég hafa losnað við þungan bakpoka þegar ég fór heim eftir miðvikudagstíman.

Í dag skil ég ekki alveg í hvaða mínus ég fór á mánudeginum og afhverju ég þurfti að hrapa svona svakalega.  En það er partur af prógrammet – ég hef bara ákveðið að gera mitt besta til að læra af þessu.  Nú veit ég fyrir víst að þessi vegferð er rétt að byrja og í dag er ég þess fullviss að ég geti haldið áfram.  Enda á ég frábært bakland sem grípur mig og kippir mér upp úr kviksyndinu áður en ég fer á bólakaf. 

Nýja mottóið mitt er því: „Failure. I never encountered it. All I ever met were temporary setbacks – Dottie Jones“

Auglýsingar