meistari2014


Ætli það sé ekki komin tími á að endurvekja þessa síðu – þó það sé bara fyrir mig.

Fyrir um ári síðan kom að því að ég stoppaði og hef staðið í stað síðan. Rokka upp og niður um einhver kíló. Og það er að gera mig geðveika. Ekki svo að ég viti svo sem ekki aðeins upp á mig sökina, ég hefði getað staðið mig ögn betur á nokkrum vígstöðum. En þegar það er mikið stress og maður er að reyna að vera 100% á fleiri en einum stað þá endar á því að eitthvað gefur sig.

Ég hef verið að bræða með mér hvað ég get gert. Hvernig ég get fundið eldmóðinn aftur.
Hef farið heim úr ræktinni full af fögrum fyrirheitum en alltaf runnið á rassinn með allt saman. Og ég er alveg komin með nóg af þessu ástandi. Á tímabili ætlaði ég m.a.s. að hætta þessu „rugli“ – þetta væri hvort sem er ekki að skila neinu! En þá kom þessi litla rödd upp í kollinn á mér sem ýtti mér aðeins áfram og vildi ekki gefast upp á mér alveg strax.

Næst á dagskrá er því nett geðveiki. 1200 hitaeiningar í 3-4 vikur, fyrirfram ákveðinn matseðill, hardcore æfingar, velvalin bætiefni og allt sett á fullt.
Núna skal ég klára þetta! (ef það er hægt að segja að maður klári einhvertíman svona vegferð)


weallneed


Þessa dagana skemmti ég mér svoldið við að líta til baka. Sjá breytinguna sem hefur orðið á mér og mínu lífi. Þó þetta hafi útheimt heljarinnar breytingu á mér og mínum venjum. Þá er þetta þess virði. Þó ekki sé nema bara fyrir litla viðkvæma sálartetrið mitt. Ég furða mig þó enn á hvað hafi gerst hjá mér sem verður þess valdandi að ég fer afstað og held þetta út. Niðurstaðan er alltaf ósköp svipuð. Hef ekki grænan! Ég vaknaði í raun bara einn daginn og ákvað að nú þyrfti ég að taka mig taki og gera eitthvað í mínum málum .. og fór að leita leiða til þess.
Þetta „eitthvað“ tók alveg þó nokkurn tíma að komast að, en það hefur verið þess virði. Á leiðinni lærði ég eitt og annað sem hefur verið ágætt að hafa í pokahorninu í þessu ferðalaginu.

En hvernig framkvæmdi ég þessa breytingu? Í litlum skrefum, örlitlum. Og það með hjálp góðs einkaþjálfa sem hélt í höndina á mér á meðan ég tók fyrstu skrefin, hikandi og doldið ósjálfbjarga. Hægt og rólega hefur mér tekist að standa meira á eigin fótum. En það er óskaplega gott að vita af útréttri hönd sem grípur í mann og styður ef allt er á leið á verri veg.

Ég ákvað að taka hlutina rólega. Vinna í einni breytingu í einu. Ekki reyna að ná „ultimate“ takmarkinu og sigra heiminn á einni nóttu. Þó það væri alveg ótrúlega erfitt að taka bara hænuskref í átt að markinu. „Borðaðu fílinn í litlum bitum“ heyrðist alloft á fyrstu mánuðunum mínum með öðlingnum.

Til að byrja með var það að venja komur sínar í ræktina, venja líkama og huga á að ég væri að fara að mæta þarna reglulega. Og hvað þá að venjast því að geta varla gengið dagana á eftir sökum strengja um allan líkaman. Með það að leiðarljósi ákvað ég að mæta 2svar í viku væri fín byrjun, þá myndi ég frekar hafa nennuna og löngunina til að fara heldur en að keyra mig út alltof fljótt – been ther – done that!

Næst var ráðist í mataræðið. Aftur ákvað ég að taka þetta í litlum skrefum. Taka út gos. Það reyndist mér auðveldara en ég átti von á, þó í dag sakni ég örlítið að fá mér ekki „popp&kók“ tvennuna í bíó eða álíka. Ég leyfði mér diet/light/zero gosdrykki á meðan og færði mig hægt og rólega yfir í sódavatnið. Í dag drekk ég að mestu leyti bara vatn, „spice-a“ það upp með klökum ávöxtum (ferskum og frosnum) og í algjörum undantekningartilvikum fæ ég mér Sprite Zero.
Borða reglulega, áður fyrr var það að borða óhollt – of lítið eða „gleyma“ að borða fram eftir öllu.  Í dag er líkaminn stilltur á að borða á x tíma fresti og ég meðvitaðri um að gefa honum góða orku.

Morgunmatur. Þar strandaði ég í smá tíma og þurfti að taka alger „baby-steps“ í átt að markinu sem mér fannst órafjarri oft á tíðum. En litlu hænuskrefin skiluðu sér að lokum og í dag er það morgunmaturinn fastur í rútínunni. Hafandi verið sú sem hafði ekki matarlyst fyrr en í fyrsta lagi 2-3 tímum eftir að hún lufsaðist fram úr rúminu var þetta áskorun. Í dag er ég orðin svöng fljótlega eftir að ég vakna.

Samsetning matarins, ávaxtaneysla, gosleysi, svefninn, fleiri æfingar í viku og allt þetta hef ég tekið fyrir eitt í einu. Með meiri reynslu og þekkingu í farateskinu hef ég stundum náð markinu aðeins fyrr en í upphafi. En það koma líka stundir og dagar sem ég renn á rassgatið með allt heila klabbið. Þar sem ég virkilega hugsa um að hætta þessu öllu og fara í „gamla“ farið. En þá kippi ég í sjálfa mig og tala mig til – því ég get það núna og ég er hætt að kaupa afskanirnar mínar eins auðveldlega og áður fyrr.

Það kom mér á óvart að þetta var, og er, margfalt auðveldara en ég átti von á. Og ég þurfti ekki að taka 360°beygju með allar mínar neysluvenjur. Auðvitað þurfti smá tiltekt, en engar róttækar breytingar.
Í dag get ég ekki hugsað mér að snúa aftur til gamla lífstílsins! Þetta er orðin partur af mér og mínu lífi núna. Mér líður svo margfalt betur á líkama og sál í dag. Þó að það hafi líka verið þrautaganga þá hefur hún verið þess virði – það hefur nefnilega líka kennt mér helling.

Ég vona að þau fáu sem eru eftir að lesa bloggið mitt átti sig á að með litlum skrefum er hægt að ná stórum árangri. Jú það krefst „ögn“ meiri þolinmæði en það skilar sér margfalt til lengri tíma litið!

 

 tumblr_lyl2jwLRqj1qg3o9ho1_500


Fyrir viku síðan var komið heilt ár síðan ég byrjaði þessa lífstílsbreytingu. Það er eitthvað svo ótrúlegt að hugsa til þess að það sé komið ár, 52 vikur, 365 dagar – en mér finnst bara nokkrir mánuðir síðan ég byrjaði þetta ferðalag.

Það hefur svo margt breyst síðan þá. Mér líður svo margfalt betur á líkama og sál. Mér finnst þetta verkefni krefjandi en skemmtilegt/áhugavert um leið.
Aldrei hafði mig órað fyrir að ná þessum árangri á þessum „stutta“ tíma! Það verður gaman að horfa yfir farin veg eftir rúman mánuð og leyfa sér að líða vel með það sem ég áorkaði á árinu, loksins!

En ég ætla ekki að ljúga að ykkur. Vegurinn hefur ekki verið beinn og breiður alla leiðina, alls ekki. Það hafa komið tímar þar sem mig hefur langar að hætta þessu „ströggli“. Þar sem ég hef gert of miklar kröfur til sjálfs míns og verið með of háar væntingar. En að hafa yfirstigið þann hjalla hefur gert svo mikið.
Bestu æfingadagarnir mínir eru þegar ég fer á æfingu og klára hann þrátt fyrir að hafa engan vegin nennt! Heyri stundum hvíslað að mér „sko ef þú gast þetta þá geturðu hvað sem er“

Það er á hreinu að þetta verður minn varanlegi lífstíll héðan í frá! Og ég ætla mér bara enn lengra á nýju ári 🙂


Nú líður að langþráðu og ljúfu sumarfríi hjá mér.  Ég ætla að áorka eitthvað svo miklu að ég er pínu hrædd við að ná ekki hvíldinni sem ég er að vonast eftir í fríinu.  Það er á dagskránni að taka myndamaraþon með afkvæminu – kynna hann fyrir gömlum og góðum myndum á borð við Gremlins, Ghostbusters, Home Alone og fleiri, hitta vinkonur á kaffihúsi – spjalla, borða, hlægja og njóta þess að vera til, fara með velvöldum aðilum í bröns á góðum stað – spjalla, borða, tala og allt það, kaupa mér föt/skó – fækkar fatnaði í réttri stærð í skápnum, njóta þess að geta nýtt tíman eins og vil þegar ég vil,  kíkja á ættingja á hinu landshorninu og svo margt fleira.  Spurning um lengra frí eða fleiri tíma í sólarhringinn?

En málið er að ég verð viku í burtu frá heimahögunum og þar af leiðandi kemst ég ekki í ræktina.  Stelpan sem sat á bílastæðinu fyrir utan rætkina fyrir viku síðan og vældi yfir nennuleysi og aumingjaskap er í dag með smá kvíðahnút og samviskubit yfir að komast ekki í sína reglubundnu hreyfingu. Já það er svoldið í ökkla eða eyra hjá mér.
Ég hef um leið áhyggjur af því að gamlir vanar kikki inn eins og skot.  Vaka fram eftir, borða óhollt og óreglulega, hreyfa sig ekkert o.s.frv.  Ég finn að til að komast hjá þessu þarf ég að þjálfa mótstöðuvöðvan vel og koma upp góðu plani.  Það þarf ekki, og á ekki, allt að fara úr skorðum og í sama gamla farið þó ég sé í fríi. 
Þetta þýðir þó ekki heldur að ég ætli að vera svaðalega smámunasöm, ekki leyfa mér neitt og lifa á ávöxtum, hafragraut og vatni í fríinu, ó nei!  Stefnan er tekin á að leyfa sér góðan mat og drykk, en í hófi og milli þess er það rútínan gamla góða.  Kannski maður leyfi sér aðeins meiri tilraunastarfsemi fyrst maður hefur tíma t.d. betrumbæta hafragrautinn og finna nýjar hugmyndir að hollum, góðum og einföldum kvöldmat og þar fram eftir götunum.  Skreppa í göngutúra með afkvæminu, viðhenginu, ein – njóta fallegu náttúrunnar sem landið okkar hefur upp á að bjóða, finna barnið í sjálfum sér og smella sér út að leika ..

Nú er að spýta í lófana – taka hvatninguna á nýtt level og byrja að prófa sig áfram í að standa á eigin fótum.  Því einn góðan veðurdag nýtur öðlingsins míns ekki við, a.m.k. ekki í sama mæli og nú er, og þá er það mitt að sjá um þessa hluti. En eins og einkaþjálfinn segir „einn dag í einu“ og ekki flækja hlutina um of, getur reynst erfitt fyrir manneskju með doktorsgráðu í flækningum 🙂


 

Eins og ein lítil vindhviða getur feikt heilli spilaborg á „nó-tæm“ feikti örlítil vindhviða mér um koll í síðustu viku.  Mánudagurinn reyndist mér sérlega erfiður.  Átti að fara ein á æfingu og nennan fokin út í hafsauga.  Sat á bílastæðinu fyrir framan ræktina og rökræddi við sjálfan mig fram og tilbaka. „þú ert þreytt- þér líður ekki vel – það kemur dagur eftir þennan dag- osfrv“ en um leið fékk ég samviskubit að standa ekki við það sem þjálfarinn hafði sagt mér að gera.  Á endanum brustu varnirnar og ég sat í bílnum og grét.  Grét yfir aumingjaskapnum í mér, skammaði og reif mig niður.  Sagði mér að ég gæti allt eins hætt þessari vitleysu ef ég gæti ekki farið ein í ræktina. Það kæmi nú einhvertíman að því að ég þyrfti að gera það.  Ef ég gæti það ekki núna afhverju ætti ég þá að geta það seinna?  Og ef ég ætlaði ekki að standa mig væri þessi barátta hvort eð er töpuð.  Sannfærði mig um að það væri bara best að hætta þessari vitleysu, fara bara í sama gamla farið sem ég þekkti svo vel og kynni.

Eftir a.m.k. hálftíma rökræður og grát kom ég mér afstað í ræktina.  Ég labbaði löturhægt á brettinu og reyndi sem mest ég mátti að halda aftur af kökk í hálsinum og tárum.  Fannst ég hafa brugðist sjálfri mér og öllum öðrum.  Fannst ég knúin til að beila á þjálfanum – var komin með margar flóttaleiðir og fannst hver annarri betri.  Á leiðinni heim trilluðu tárin niður kinnarnar og mér fannst ég vera alger aumingi.  Sama hvað ég reyndi að tala um fyrir sjálfri mér þá virtist „ég“ ekki hlusta. 

Miðvikudagurinn mætti í öllu sínu veldi og kvíðahnúturinn með honum.  Allan daginn braust í mér löngunin til að beila á öllu saman.  Fara heim upp í sófa og borða yfir tilfinningarnar.  Af „gömlum“ vana tók ég samt ræktartöskuna með mér í vinnuna.  Ég ákvað því að ætla að „play it cool“ og mæta í ræktina og segja sem minnst við þjálfan um mánudaginn.  Allt gekk þokkalega hjá mér með það plan þangað til herran mætti á svæðið.  Litla ég átti í miklum erfiðleikum með að halda aftur af tárunum og áður en ég vissi af var ég búin að segja honum alla sólarsöguna. Að sjálfsögðu átti drengurinn fullt af góðum ráðum handa mér.  Mér fannst ég hafa losnað við þungan bakpoka þegar ég fór heim eftir miðvikudagstíman.

Í dag skil ég ekki alveg í hvaða mínus ég fór á mánudeginum og afhverju ég þurfti að hrapa svona svakalega.  En það er partur af prógrammet – ég hef bara ákveðið að gera mitt besta til að læra af þessu.  Nú veit ég fyrir víst að þessi vegferð er rétt að byrja og í dag er ég þess fullviss að ég geti haldið áfram.  Enda á ég frábært bakland sem grípur mig og kippir mér upp úr kviksyndinu áður en ég fer á bólakaf. 

Nýja mottóið mitt er því: „Failure. I never encountered it. All I ever met were temporary setbacks – Dottie Jones“


Vá!  Á leiðinni heim í kvöld uppgvötaði ég að „gamla“ég er að koma til baka.  Ég var búin að finna milljón og tvær ástæður fyrir því afhverju ég væri orðin eins og ég var, þreytt/neikvæð/pirruð/súr og allt það, þyngdin og ástandið á mér var þó ekki eitt af því (maður getur verið svo blind!) – mikið vildi ég óska að ég hefði fyrr uppgvötað að „þetta“, hreyfing og tilheyrandi væri það sem þyrfti til að ég kæmi aftur.  
Í gegnum tíðina hef ég frekar verið sú sem gat alltaf séð jákvæðu hliðina á hlutunum eða notað „þetta reddast“,  ég var (og er) viðkvæm en í dag get ég brosað í gegnum tárin eða bara hlegið að því sem er að bögga mig,“ – en var svoldið komin á öfugan vegarhelming .. Mér finnst svo æðislegt og skemmtilegt að vera farin að endurheimta sjálfa mig að ég á varla lýsingarorð til að lýsa því – annað en bros og „overwhelming“ gleði!

Alltí einu í fyrsta skipti í svo langan tíma er mér aðeins að byrja að líða vel í mínum eigin líkama.  Eitthvað sem ég átti alls ekki von á að myndi nokkur tíman gerast!  Fannst auðveldara að segja sjálfri mér og öðrum að ég væri sátt við mig og mitt heldur en að viðurkenna að ég ætti svo mikið meira inni – ég gæti svo mikið meira en ég leyfði mér að trúa og treysta á sjálf.  Ég finn allt í einu fyrir styrk sem ég vissi ekki að ég ætti til.  Veit ekki hve mikið og lengi ég hef leitað eftir almennilegri/öflugri/górði hvatningu en aldrei fundið nóg til að komast á þann stað sem ég er núna.  Stað sem mér finnst pínu skemmtilegur satt best að segja.  
Innst inni er svoldið kvíðablandin tilhlökkun um framhaldið.  Hvar ég enda?  Hvar og hvenær, ef einhvertíman, verð ég sátt við mig? Hvernig verður framhaldið?

Ég er allt í einu manneskjan sem leiðist að standa/sitja kjurr, mér líður eins og krakka stundum.  Klifrandi, hoppandi, hlaupandi og svo framvegis.  Ég nenni að gera eitthvað meira en hanga í sófanum í tölvunni eða yfir sjónvarpinu og mig langar að gera eitthvað meira!  Það sem gat tekið mig langan tíma að framkvæma áður fyrr tekur langtum styttri tíma núna.  Að rölta einhvern spotta er orðið lítið sem ekkert mál!  Að keyra ekki hring eftir hring til að fá stæði sem næst innganginum.  Finna hvernig ég styrkist með hverjum deginum.  Mér finnst þetta ótrúlega gaman!

Mig langar stundum í ræktina á hverjum degi, kannski því mér finnst enn að vigtin fari of hægt niður á við – þrátt fyrir að vera næstum 30 kílóum léttari en ég var fyrir 7-8 mánuðum síðan!  Það er hvorutveggja hvatning og niðurdrep fyrir mig.  Ég á erfitt með að gera upp á milli.  Mér finnst erfitt að þurfa að bíða.  En mér finnst líka visst „comfort“ að vera þar sem ég var áður – hlutverk sem ég þekki og kann svo vel á alla kannta.  Það er ýmislegt sem ég óttast innst inni doldið með breyttum lifnaðarháttum.  En það er kannski allt eðililegt?

Ræddi einhvertíman við öðlinginn um að fullkomunaráráttan mín væri kannski meira hræðsla.  Og ég held að það geti verið rétt hjá honum.  Ég er hrædd við framhaldið – ég er hrædd við að ég beili á sjálfri mér þegar ég á að fara að standa á eigin fótum (fæ næstum kvíðakast við tilhugsunina), ég hrædd við að enda á sama stað og þegar ég byrjaði  og ég er líka doldið hrædd við að geta ekki „falið“ mig lengur bakvið endalausa kaldhæðni og  skráp sem ég hef byggt upp til að verja mig svoldið vegna þyngdarinnar m.a. (held ég) …. (reyndar tekur mig dágóðan tíma að skríða úr skelinni og sýna fólki „the real me“ á meðan er kaldhæðni ágætt vopn)
Í sumar hefur margt verið að gerjast í kollinum á mér, einhverjar djúpar pælingar um lífið og tilveruna.  Og allt í einu núna uppgvöta ég að það hefur lítið borið á lægð, nema þá bara algeru sýnishorni.  Ég hef undanfarið getað snúið mér til baka fyrr og betur en áður.  
Kannski er það sólin, sumarið og birtan og gleðin sem fylgir því sem gerir mig svona „high“ en so be it!  Það er þá um að gera að njóta þess á meðan það varir!  Og vona að það vari sem lengst.